Fróðleikur
Um bætiefni eftir efnaskiptaaðgerð
Fylgjast þarf vel með blóðgildi, járni, B12-vítamíni, D-vítamíni, fólsýru og mögulega CRP.
Efnaskiptaaðgerðir eru áhrifamesta meðferðin við alvarlegri offitu og gefa að jafnaði góð langtímaáhrif á þyngd og fylgisjúkdóma ofþyngdar. Markmið aðgerðanna er að stuðla að þyngdartapi með minni inntöku hitaeininga. Þessu fylgir hætta á of lítilli inntöku mikilvægra næringarefna eins og vítamína og steinefna. Til viðbótar geta breytingar á meltingarveginum í kjölfar aðgerðanna leitt til verri upptöku næringarefna.
Mikilvægi eftirfylgni í kjölfar aðgerðanna er augljóst og er mikilvægt að bæði framkvæmdaraðili aðgerðanna og heilsugæslan taki þátt í þessu eftirliti. Fylgisjúkdómar ofþyngdar eru algengir og krefjast oft meðferðar sem heilsugæslan sinnir að stórum hluta. Eftir aðgerð geta einhverjir þessara sjúkdóma læknast eða lagast að hluta og því verður oft breyting á áherslum í meðferð þeirra.
Maginn gegnir mikilvægu hlutverki í upptöku B12-vítamíns og steinefna úr næringunni. B12-vítamín, járn og sínk eru öll bundin próteini í matnum sem þarf að brjóta niður til að upptaka steinefnanna sé möguleg. Það gerist með aðstoð ensýmsins pepsinogen sem finnst í maga og er virkast í súru umhverfi. Minni magasýra, skemmri tími í súru umhverfi og magasýrulyf (prótónpumpuhemlar) leiða jafnframt til minni upptöku járns. Upptaka B12-vítamín er í neðsta hluta smágirnis og eykst með aðstoð próteinsins intrinsic factor sem er framleitt í maga. Flestar þær efnaskiptaaðgerðir sem eru framkvæmdar í dag minnka rúmmál magans og leiða því til minni upptöku B12-vítamíns og steinefna.
Mikilvægt er að bæði konur og karlmenn taki viðbótar járn. Hlutfall þeirra sem greinast með járnskort eykst með árunum frá aðgerð. Fyrir aðgerð er hlutfall kvenna og karla með járnskort um 10% en eykst í 17-18% 5 árum eftir aðgerð.
Lang stærstur hluti upptöku á mikilvægum næringarefnum á sér stað í skeifugörn og efsta hluta smágirnis. Hér má nefna kalk, D-vítamín, járn, sínk auk annarra steinefna. Yfir helmingur þeirra sem eru í ofþyngd eru með D-vítamín skort þegar fyrir efnaskiptaaðgerð. D-vítamín er fituleysanlegt og upptaka þess er skert við vanfrásog (malabsorption). Það fer eftir tegund efnaskiptaaðgerðar hversu miklu vanfrásogi hún veldur en í einhverjum tilvikum getur orðið alvarlegur skortur á D-vítamíni sem krefst kröftugra viðbótargjafa.
Ráðleggingar til að fyrirbyggja vítamín- og steinefnaskort
Í kjölfar efnaskiptaaðgerða er mest hætta á járn-, B12-vítamín og D-vítamín skorti. Því er mikilvægt að allir einstaklingar sem hafa farið í slíka aðgerð bæti járni, B12-vítamíni, D-vítamíni og kalki við næringuna. Til viðbótar er talið öruggast að taka fjölvítamín/steinefni til viðbótar. Í töflunni hér að neðan má sjá hvaða skammtar eru ráðlagðir að lágmarki. B12-vítamín er líka hægt að gefa í vöðva á 3ja mánaða fresti. Vítamín og steinefni falla ekki undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands og getur því þó nokkur kostnaður hlotist af þessari meðferð.
Ráðlagðir dagskammtar næringarefna eftir magaermis- og hjáveituaðgerðir:
Fylgjast þarf vel með blóðgildi, járni, B12-vítamíni, D-vítamíni, fólsýru og mögulega CRP. Fyrsta árið eftir aðgerð eru nokkrar blóðprufur teknar með reglulegu millibili fyrsta árið en ef þessi gildi eru góð og breytast lítið yfir árið er hægt að láta líða lengri tíma á milli næstu eftirlita. Ekki er ráðlagt að stöðva inntöku bætiefna þó svo að blóðprufur komi vel út því þá getur skortur myndast til langs tíma. Ef gildin eru ekki innan marka þarf að þétta eftirlitið. Ofþyngd fylgir oft krónísk bólga í líkamanum og CRP gildi lækka oft eftir aðgerð. Þessar ráðleggingar eru til fyrirbyggjandi meðferðar og duga ekki ef skortur á ákveðnum gildum er til staðar. Eins má gera ráð fyrir að þessar ráðleggingar dugi ekki til ef skortur var til staðar fyrir aðgerð. Til viðbótar þarf að fylgjast sérstaklega með undirhópum eins og konum á meðgöngu og sjúklingum með króníska bólgusjúkdóma í meltingarvegi.
Fleira í fróðleik
Hugmyndir að máltíðum
Hvað á ég að borða? Hugmyndir að máltíðum.
Verkjalyf eftir efnaskiptaaðgerð
Það er mikilvægt að velja rétt verkjalyf.
Hægðatregða, hvað er til ráða?
Hægðatregða er mjög algenfur fylgikvilli eftir efnaskiptaaðgerðir.
Efnaskiptaaðgerðir - kostir og gallar ólíkra aðgerða
Aðalsteinn Arnarson fjallar um kostina og gallana.